Monday, December 31, 2012

2012

Hmm ég var gift kona allt árið 2012, það er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Í Hróarskeldu í ágúst 2011 var ég ganga eftir þessum trjágöngum með Eika, hann sagði mér að taka mynd og ég smellti af og ugla húhúaði í skóginum rétt á meðan. 

Ég sneri mér við og hann bað mig að giftast sér, ég svaraði "afhverju ertu svona mikill asni?" - veit ég er svakalega rómó, en Jáið fylgdi líka rétt á eftir ;) dásemdar minning ! Hmm ætlaði að fara að skrifa um árið 2012 en endaði þarna. Hitt kemur síðar....

Gamlársdagur


Fórum í bíó í gærkveldi og sáum Hobbitann. Elska það þegar öll skilningarvit opnast og maður heyrir eh sem höfðar til manns - fyrir utan hvað voru mörg flott skot í þessari mynd í gær þá var það þessi setning sem fór alveg inn í merg: “Saruman believes it is only great power that can hold evil in check, but that is not what I have found. I found it is the small everyday deeds of ordinary folk that keep the darkness at bay. Small acts of kindness and love. Gandalf”

Er í Reykjavík í fyrsta skipti síðan 2007-2008 um áramót. Það voru tímamótaáramót í lífinu fyrir margra hluta sakir en helst af öllu vil ég vera í Undralandi og Steinadal. Hinsvegar var færðarútlitið ekki gott í gær, og kannske öllu verra að ekki var fyrirhugað að moka 1 janúar en þá þurftum við að vera komin í bæinn. En það er svosem alltaf líka gott að hreyfa til hefðir og vana, þá verður maður ekki jafn fastur í þeim. 

Fyndið samt þegar ég huxa til þess að Kráka hefur aldrei verið í bænum um áramót. Veit ekki hvernig litla veðurhrædda pug-num mun líða þegar sprengingarnar rjúka af stað, en þegar hún var lítil reyndi hún að hoppa ofan í áramótatertu sem var að springa, fannst ljósin heillandi þessari elsku. 

Er búin að hafa það svakalega gott í fríinu mínu 13 daga frí! það verður stuð að koma sér í vinnugírinn ;) en þetta eru nú bara 3 vinnudagar og svo strax aftur helgi. Ég getðetta!

Kveð gamla árið betur á morgun! 2013 var verulega gott ár :)

Sunday, December 30, 2012

Uppáhaldssnakkið

2 msk grísk jógúrt og 1 msk af Nutella hrært saman. Skera niður epli, vínber og jarðarber skorin niður og dýft í. Ég get svo svarið það að það eru eh fíkniefni í þessu.... alveg bilaðislega gott. Meira segja fyrir manneskju eins og mig sem hefur alltaf fundist Nutella algjör drulla hehehhehe. Anna Sjöfn fær heiðurinn af því að hafa kynnt mig fyrir þessu.

Saturday, December 29, 2012

Jólabarnið

Ég er að verða að jólagebba, finnst allt þetta stúss bara alveg stórskemmtilegt. Svo hér fyrir neðan gefur að líta breytinguna frá skrautunum þremur og aðventustjaka úr hvítvínsglösum. By the way var skrautið þá iðulega sett upp á þorláksmessu og tekið niður Annan í jólum :) - nú fær þetta að vera fram að Þrettándanum!

Rauð ber í kramarhúsið á ganginum
Hetfieldsi fékk jólaskraut
Jólahjónin hans Eika
Englasöngur á ísskápnum
Síðust tvö jól hefur eiginmaðurinn fengið í skóinn, einn bjór frá hverjum jólasvein :) heppinn !!
Skreytti meira að segja hreindýrshornin fyrir ofan rúmið mitt. Hef aldrei sett upp jólaskraut í svefnherberginu mínu fyrr :)
Á þorláksmessu var 4 í aðventu, þá kveiktum við á fjórða kertinu, eiginmaðurinn horfði á Forrest Gump meðan að ég hlustaði á Bubba syngja
JólaKráku finnst ekkert sérstaklega gaman að fara í föt en lætur sig hafa það einu sinni á ári
Prúðbúin á leiðinni upp í Hafnarfjörð til að halda jólin
Þegar heim var komið á aðfangadagskvöld opnuðum við rauðvínsflöskuna frá Flórens og kveiktum kerti á uppáhaldsjólaskrautinu mínu, þessu fagra Englaspili
Saga Ljós færði okkur skreytingu þegar hún kom í aðventukaffi og græna jólatréið leyndist í jólapakka :)
Þormóður naut fékk líka jólakúlur
Er alvarlega skotin í hreindýrum og elgum, þetta verður væntanlega stórt stórt safn einn daginn
Bakaði svo jólaskraut í eldhúsgluggann
 Og jólatréið okkar :)

Jólabækurnar

Heyrði í systur minni á Hólmavík áðan, það er svosem ekkert spennandi akkúrat núna að vera að þeysast norður á Strandir.  Væri reyndar bara ekkert hægt í dag þar sem það er allt ófært en mér skildist á henni að það væri nú frekar vegna veðurs en ekki vegna þess að það sé svo mikill snjór. En ætli við látum þetta ekki ráðast bara á morgun, ef þetta lítur vel út, þá hoppa í 66°flísheildress, úthverfabomsur og af stað...

Annars er ég búin að lesa nokkrar bækur þessi jólin. Útkall Sonur þinn er á lífi, Gísli á Uppsölum, Ljósmóðirin, Kuldi, Reykjavíkurnætur, Töfraðu fram lífið og BjarnaDísu. Það er ekkert betra en að lesa. Náði mér svo í eina enn þegar ég átti að vera að kaupa í matinn, Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttir - verð að hafa eh að gera þegar ég verð andvaka í nótt.

Nýja árið byrjar svo með trukki, er að reyna að mana mig upp í það í huganum að hlakka klikk mikið til. Það hlýtur að koma. 

Annars er ég búin að komast að því að það hentar mér núll að sofa út. Mér finnst dagurinn bara hafa farið til fjandans...

Friday, December 28, 2012

Réttlæting

Er aðeins að huxa um réttlætingu. Ekki af því að ég sé að hamast við að réttlæta eitthvað :) en þetta er eitt af því sem fer um höfuðið á mér þegar ég er í fríi - ég huxa nefnilega of mikið.

Sumsé réttlæting þess sem fannst allt í lagi að drekka 2 hvítvínsglös þrátt fyrir 10 ár af edrúmennsku, þess sem fannst í lagi að keyra heim eftir 5 bjóra, þess sem fannst í lagi að kyssa sætu stelpuna í gær þrátt fyrir að eiga kærustu heima, þess sem fannst í lagi að ráðast á annan einstakling, með orðum, hnefanum nú eða einhverju öðru. Og svo framvegis.....

Sá sem drakk hvítvínsglösin 2 sannfærði sig og sína um að þetta væri allt í lagi því hann væri 10 árum eldri og reyndari og í dag réði hann vel við þetta og gæti hætt sjálfur. Sá sem keyrði heim var alveg í ástandi til að keyra, borðaði vel og það var alveg klukkutími síðan hann drakk síðasta bjórinn. Sá sem kyssti sætu stelpuna hafði rifist við kærustuna, hún var svo ósanngjörn við hann, ekki eins og hann hefði farið heim með sætu stelpunni. Sá sem réðst á aðra mannveru var að hefna sín fyrir óréttlæti sem hann eða annar varð fyrir. Hann heyrði nefnilega að viðkomandi væri skíthæll og ætlaði að sýna honum í tvo heimana. 

Réttlætingin segir ekki "ég gerði mistök og ég ætla að taka ábyrgð & afleiðingunum". Og þá er ég ekki að tala um endilega gagnvart öðrum, heldur fer réttlætingin líka fram gagnvart sjálfinu. Eigandi réttlætingarinnar setur saman kolskakka orsök og afleiðingu. Hann sjálfur verður kolskakki parturinn í orsökinni og afleiðingunni. Oft..

Og er þetta þess virði ? Hvar endar alkohólisti sem hefur talið sér trú um að hann ráði við að drekka ? Hvað ef sá sem keyrði heim slapp fram hjá löggunni en keyrði á manneskju. Kossinn í hefndarskyni endar í ferðatösku á tröppunum. Sá sem réðst á aðra mannveru skaðaði hana fyrir lífstíð er með öllu óskiljanlegt, algjörlega.

Ég er held með ást og frið. Held að skoðanir mínar séu oft á tíðum svarthvítar og fáir, gráir fletir. En þá kannske komum við aftur að umburðarlyndinu, það eru alltaf fleiri en 2 hliðar á öllum málum, kannske er eh þarna sem maður veit ekki, skilur ekki. 

Er ekki með neina niðurstöðu (andvökunótt) - en sumt liggur í augum uppi. Ekki keyra fullur. Ef þú hefur ehtíma þurft meðferð við áfengisdrykkju þá eru engar líkur til þess að þú ráðir við að drekka síðar meir. Hættu með kærustunni áður en þú kyssir sætu stelpuna. Það er aldrei ásættanlegt að ráðast á aðra manneskju hvorki með orðum né hnefum, aldrei!

hvað ætli ég fái svo á heilann næst. 

Skipulagsæði

Fyrir skipulagsfíkla þá verð ég að deila með ykkur snilldinni http://www.trello.com - þarna geturðu búið til allskyns mismunandi verkefni og skipulagt vinnuna þína. ELSKETTA og nota þetta í vinnunni, heima & fyrir project eins og Undraland. 

Svo geturðu deilt listunum með öðrum og sett ábyrgð á hvert verkefni, hver á að gera hvað .... elsketta....

Alveg viss !

Um að ég fái happdrættisvinning í dag. Búin að eiga miða bæði í HHÍ og DAS í mörg ár og hef aldrei unnið neitt. Þetta er minn dagur :)

Wednesday, December 26, 2012

Jóladagarnir

Það er svo gaman að gúbbast um heimilið, þegar bæði eiginmaðurinn & hundurinn sofa. Fæ mér kaffi, kíki í blöðin eða bók. Og þá að jólahugvekju ársins. 

Umburðarlyndi. Það eru ávallt lágmark 2 hliðar á öllum málum, yfirleitt miklu miklu fleiri. Dómharka yfir mönnum og málefnum er gríðarleg. Nú geri ég mig seka um akkúrat þetta :) dæmi fólk sem skrifar misgáfulegar (að mínu mati) athugasemdir á netinu sem kjána. 

Mér bara blöskrar þegar fólk leyfir sér t.d. að segja um stjórnmálamenn að þeir séu helvítis fífl og fávitar. Jah væntanlega fyrir að hafa ekki sömu skoðanir nú eða aðrar forsendur til að mynda sér álit. Þetta fólk á sér flestallt fjölskyldu og því ætti aðgát höfð í ummælum um fólk sem þú þekkir ekki neitt. Og að dæma manneskju út frá því sem hún gerir, já já, meikar alveg sens. En ég hef alveg gert hluti sem ég myndi síður vilja vera dæmd útfrá alla ævi. 

Ég mun fyrr detta niður dauð en að detta í umræðu á netinu yfir fréttum. Í fyrsta lagi veit maður ekki sannleikann þó eh hafi skrifað frétt frá sínu sjónarhorni (það sjónarhorn er enn ein hliðin), áliti mínu get ég bara haldið fyrir mig. 

Allir þessir möguleikar til að tjá sig, facebook, blogg, umræðuvefir osfr.v. - fólk virðist bara hafa mismikið vit til að tjá sig opinberlega, mín ráðlegging er að sleppa því frekar ;)

Segi ég og er búin að starta nýju bloggi hjé hjé.

Sunday, December 23, 2012

Aðventa

Það jafnast ekkert á við að hlusta á fáeinar jólakveðjur á Rás1 svona að morgni Þorláksmessu :) Gerður G Bjarklind er líka með svo sérstaklega fagra rödd.

Var líka að komast að því að ég er búin að koma mér upp fullt af jólahefðum, eiginlega samt aðventuhefðum. Ekki svo að skilja að jólin yrðu "ónýt" ef einhver þeirra dytti uppfyrir. En þegar ég fer að huxa þetta, þá eru þær orðnar allmargar. Til dæmis var haldið heimsmeistaramót í frjálsum piparkökuútskurði nokkur jól í röð.

Aðventuboð, Möndlugrauturinn á aðfangadag, Jólakveðjur á Rás 1 á Þorláksmessu, jólatónleikar, kósí jólamyndakvöld, túlípanar í vasa og fagrar jólagreinar, jólaföndur og  ehveginn finnur maður tíma til að heimsækja fólkið sitt sem maður er kannske ekki of duglegur við alla aðra hluta ársins. 

Það er eitthvað við að fara að sofa á Þorláksmessukvöldi í brakandi hreinum rúmfötum. Ég man vel eftir því þegar ég var lítil, fannst það sérstaklega hátíðlegt. Á aðfangadag kveikjum við á kertum fyrir englavini okkar, huxum fallega til þeirra og spilum fallegt lag handa þeim. Á jóladag er svo ómissandi að horfa á Stiklur með Gísla á Uppsölum.  Bækur, konfekt og kaffi er eh sem fær marga klukkutíma yfir hátíðirnar. Aðfangadagskvöld í Arnarhrauni, gamla árið kvatt í Undralandi og Steinadal, horfa á flugelda af Smáhamrahálsi þar sem sést yfir Hólmavík og Drangsnes.

Í mörg ár (yfir 10 ár) fór ég líka alltaf á Þorláksmessutónleikana hans Bubba. Svo talaði hann mjög mikið um útrásarvíkinga og Glitni og lán eitt árið og það dó bara eitthvað inn í mér - þetta var ekki beint það sem mig langaði að hlusta á sem lokaþátt á aðventunni. Fór með hálfum huga árið á eftir og þá söng hann lagið um feitu stelpuna sem enginn vill elska og biðraðir og bomsur, og var doldið bitur líka. Og eftir það hef ég kosið að fara ekki, sumsé í fyrra og núna. Allt í lagi að vera beittur en ekki bitur. Núna ætla ég bara að stilla á tónleikana í útvarpinu en er ready með playlista með mínum uppáhalds Bubba lögum ef mér líst ekki á :) 

Þetta er svakalega leiðinleg upptalning! En samt er þetta aðventan mín og jólin. Niðurstaðan er sú að mér finnst þetta dásamlegur tími,fannst það líka þegar ég gerði ekkert af þessu hér fyrir ofan og átti 3 skraut og gerði aðventukrans úr hvítvínsglösum :)

Best er samt að finna frið í hjartanu og sátt við Guð & menn

Saturday, December 22, 2012

Í þungum þönkum

Ég finn hjá mér þörf til að tjá mig. Ákvað að loka gamla blogginu mínu fyrir svolitlu síðan. Held það sé ágætt að blogga í 10 ár á einni slóð en svo breytist svo margt og maður sjálfur mest að blaðsíðurnar í þeirri bók klárast, en þá er líka bara hægt að byrja á nýrri bók. Hún er að hefjast.