Monday, January 12, 2015

Kveðja til Kráku - kafli 1

Hún Hrafnhildur systir mín stakk upp á því að ég myndi skrifa sögur um villidýrið hana Kráku. Frábær hugmynd!! 

Fyrst þegar ég hitti villidýrið þá var skuldbindingafælna ég nýbúin að eignast kærasta. Það er nefnilega doldið erfitt fyrir skuldbindingafælið fólk að fara úr "við erum að hittast" í "þetta er kærastinn minn". Sagan átti samt ekki að vera um mig, en svona er þetta, sumir eru snillingar í að láta heiminn snúast að mestu leyti í kringum sjálfan sig.

En sagan er bara rétt að byrja. Kærastinn kæri fann nefnilega hund til að setja skuldbindingafælnu mig algjörlega út á brún hengiflugsins. Ég hafði svosem rætt það margoft að mig langaði í bolabít mínus slef. Það var samt meira lookið heldur en það að mig langaði rosalega að eiga dýr.

En kærastinn kæri var með þetta. Pug var lausnin. Skrítin tegund af hundi og ég hafði aldrei áður hitt slíkan hund. Það var samt svoleiðis hundur framan á hundabók sem að AmmaLyng gaf AddaBró í jólagjöf þegar við vorum lítil. Mér fannst hundurinn sætur.

Hann var búinn að stilla upp stefnumóti.  Við pughvolp, 6 mánaða sem vantaði nýtt heimili. Við roguðumst upp í Árbæ og var boðið inn hjá fólkinu sem átti hvolpinn og fylgdumst með þessum flöffí ferfætlingi.

Ferfætlingurinn færði sig upp á skaftið og vildi láta lyfta sér upp í sófa til okkar, um leið og eigandinn var búinn að því labbaði hún rösklega (eins og pínandi litlir fætur undir öllu stærri búk leyfa) til mín stillti sér upp við hliðina á mér og pissaði svo á mig.

Eigandinn varð algjörlega skelfingu lostinn og stamaði "hún hefur sko aldrei pissað inni áður, hvað þá á einhvern" - ég trúði því nú mátulega og var viss um að þetta væri óalandi og óferjandi óargadýr.

Óargadýrinu var skutlað niður á gólf og við fengum að vita að það héti Kráka, af því að hún væri þjófótt og stæli snuðum af yngsta fjölskyldumeðlimnum og færi með þau í bælið sitt. Ég var ofsalega fegin, því ég var búin að ímynda mér að hún bæri eh skelfilegt tískunafn. Mist Eik, Dís Mist eða eh svoleiðis en mér fannst karakter í Kráku nafninu.

Svo fórum við og höfðum svosem ekkert efni á sófapissandi óargadýrinu Kráku. En konan hringdi og tilkynnti okkur að hún væri, úr hópi umsækjanda búin að velja okkur þrátt fyrir að við gætum ekki borgað uppsett verð. Öllu heldur að hún ætlaði ekki að setja sig upp á móti vali óargadýrsins sem hefði valið okkur þegar hún kaus að pissa á mig.

Great! Ég sagði mest lítið og huxaði Kærastanum þegjandi þörfina. Ekki batnaði það heldur þegar að ég kom heim úr vinnunni fáeinum dögum síðar og þá sat hann með óargadýrið í stofunni. Rétti mér það svo og sagðist þurfa að fara í vinnuna, ég yrði að taka fyrstu vaktina.

Þetta kvöld hringdi ég í fyrsta og eina skiptið í Kærastann í vinnuna og skipaði honum að koma heim, ég gæti alls ekki sinnt óargadýrinu og það væri skælandi og snöktandi og ég kynni ekki að hugga það.

Það tók 6 klst fyrir óargadýrið að vinna hjarta mitt, þegar það loksins sofnaði í bælinu sínu við hliðina á mínu ofan á lófanum á mér.