Monday, January 12, 2015

Kveðja til Kráku - kafli 1

Hún Hrafnhildur systir mín stakk upp á því að ég myndi skrifa sögur um villidýrið hana Kráku. Frábær hugmynd!! 

Fyrst þegar ég hitti villidýrið þá var skuldbindingafælna ég nýbúin að eignast kærasta. Það er nefnilega doldið erfitt fyrir skuldbindingafælið fólk að fara úr "við erum að hittast" í "þetta er kærastinn minn". Sagan átti samt ekki að vera um mig, en svona er þetta, sumir eru snillingar í að láta heiminn snúast að mestu leyti í kringum sjálfan sig.

En sagan er bara rétt að byrja. Kærastinn kæri fann nefnilega hund til að setja skuldbindingafælnu mig algjörlega út á brún hengiflugsins. Ég hafði svosem rætt það margoft að mig langaði í bolabít mínus slef. Það var samt meira lookið heldur en það að mig langaði rosalega að eiga dýr.

En kærastinn kæri var með þetta. Pug var lausnin. Skrítin tegund af hundi og ég hafði aldrei áður hitt slíkan hund. Það var samt svoleiðis hundur framan á hundabók sem að AmmaLyng gaf AddaBró í jólagjöf þegar við vorum lítil. Mér fannst hundurinn sætur.

Hann var búinn að stilla upp stefnumóti.  Við pughvolp, 6 mánaða sem vantaði nýtt heimili. Við roguðumst upp í Árbæ og var boðið inn hjá fólkinu sem átti hvolpinn og fylgdumst með þessum flöffí ferfætlingi.

Ferfætlingurinn færði sig upp á skaftið og vildi láta lyfta sér upp í sófa til okkar, um leið og eigandinn var búinn að því labbaði hún rösklega (eins og pínandi litlir fætur undir öllu stærri búk leyfa) til mín stillti sér upp við hliðina á mér og pissaði svo á mig.

Eigandinn varð algjörlega skelfingu lostinn og stamaði "hún hefur sko aldrei pissað inni áður, hvað þá á einhvern" - ég trúði því nú mátulega og var viss um að þetta væri óalandi og óferjandi óargadýr.

Óargadýrinu var skutlað niður á gólf og við fengum að vita að það héti Kráka, af því að hún væri þjófótt og stæli snuðum af yngsta fjölskyldumeðlimnum og færi með þau í bælið sitt. Ég var ofsalega fegin, því ég var búin að ímynda mér að hún bæri eh skelfilegt tískunafn. Mist Eik, Dís Mist eða eh svoleiðis en mér fannst karakter í Kráku nafninu.

Svo fórum við og höfðum svosem ekkert efni á sófapissandi óargadýrinu Kráku. En konan hringdi og tilkynnti okkur að hún væri, úr hópi umsækjanda búin að velja okkur þrátt fyrir að við gætum ekki borgað uppsett verð. Öllu heldur að hún ætlaði ekki að setja sig upp á móti vali óargadýrsins sem hefði valið okkur þegar hún kaus að pissa á mig.

Great! Ég sagði mest lítið og huxaði Kærastanum þegjandi þörfina. Ekki batnaði það heldur þegar að ég kom heim úr vinnunni fáeinum dögum síðar og þá sat hann með óargadýrið í stofunni. Rétti mér það svo og sagðist þurfa að fara í vinnuna, ég yrði að taka fyrstu vaktina.

Þetta kvöld hringdi ég í fyrsta og eina skiptið í Kærastann í vinnuna og skipaði honum að koma heim, ég gæti alls ekki sinnt óargadýrinu og það væri skælandi og snöktandi og ég kynni ekki að hugga það.

Það tók 6 klst fyrir óargadýrið að vinna hjarta mitt, þegar það loksins sofnaði í bælinu sínu við hliðina á mínu ofan á lófanum á mér.


Saturday, December 21, 2013

Ég, aldurinn og jólin

Einu sinni var ég að keyra heim úr vinnunni á aðfangadag. Keyrði fram á árekstur, þ.e. jeppi hafði keyrt inn í hliðina á smábíl. Í smábílnum var gömul kona farþegi hjá ungri konu. Jeppanum keyrði maður. Hann og unga stúlkan voru að styðja gömlu konuna að sjúkrabílnum þegar ég kom að. 

Þar sem ég sat á rauðu ljósi í bílnum mínum á leiðinni heim tókst mér að ímynda mér að unga stúlkan hefði verið með ömmu sinni í kirkjugarðinum. Þær saman að setja ljós á leiði afans, hefðu svo verið á leiðinni á elliheimilið þar sem amman ætlaði að halda jólin. 

Og með tár í augunum og kökk í hálsinum keyrði ég heim.

Áðan var ég í Bónus. Þar var eldri maður með mat í körfu og bað stúlkuna að stoppa þegar að hann væri kominn upp í 3000 kr. Á milli mín og hans var pelsklædd frú (sem skiptir ekki öllu máli en ég ímynda mér að mögulega hefði ég haft kjark ef hún hefði ekki verið þarna). Alltíeinu brosir stúlkan elskulega til mannsins og segir honum að nú sé hún komin upp í 2989 kr. Hann brosti tilbaka, bað stúlkuna að halda eftir kaffipoka og hakki og skottaðist út. Ég er ennþá leið í hjartanu að hafa ekki þorað að bjóða honum að kaupa kaffið og ketið. 

Eiginmaðurinn sagði mér reyndar fyrir nokkrum dögum að ég yrði svona í desember. Þá meina ég ekki huglaus og ímyndunarveik. En mér finnst pínulítið erfiðara að vera til. 

Af því að það eru svo alltof alltof margir sem eiga engan. Engan sem heimsækir eða hringir. Auðvitað af margvíslegum ástæðum. En ég meina Hitler var skemmtilegur við lítil börn. Svo það má mikið vera ef einstæðingar eru það vegna illmennsku. 

Ok það sem ég er að reyna að segja er, að ein verðmætasta gjöfin er tíminn okkar, gefum það sem við getum til þeirra sem þurfa og leggjum allt í samskiptin sem við eigum og leggjum okkur fram við að eiga falleg samskipti. 

Og á sama tíma verð ég að viðurkenna að það hlýtur að vera auðveldara að vera bara sama, vera reiður út í fólk sem maður þekkir ekki neitt, pólitíkusa, ríkisstjórnir og býsnast yfir eh sem kemur manni ekki rassgat við. En við eigum það sameiginlegt að vera fólk og orkan sem fer í að hafa skoðun á hlutum sem koma manni ekkert við væri betur nýtt til að gefa af okkur til annarra. 

Yfir & út

Monday, July 15, 2013

Breytingar

Ógeðslega margt búið að gerast síðan síðast.  Ég er búin að skipta um vinnu og kaupa mér leðurjakka og neonbleikan kjól.

Þessi setning segir það allt. Svartklæddi Vodafonestarfsmaðurinn til rúmlega 14 ára. Komst reyndar að því að ég kann engan veginn að skipta um vinnu, enda langt síðan síðast og var mjög pirruð yfir því að vita ekki allt á 2 vikum hehehheheh! En þetta tekur víst aðeins lengri tíma en það.

En mikið hrikalega hefur maður gott af því að breyta um umhverfi. Maður fer að huxa hlutina allt öðruvísi sem er hollt og gott.

En samt það sem liggur á mér í dag er veðrið. Það rignir og rignir og rignir og rignir, er orðin alvarlega depressed yfir þessu & íbúðamálunum. Sumsé vil fá sól, bara smá og nýja íbúð - er ég að biðja um of mikið :)


Monday, March 25, 2013

Gísli Guðjónsson

Þessi maður er stórmerkilegur

Las fyrir mörgum árum bók um hann "Réttarsálfræðingurinn" Hann hefur sérhæft sig í fölskum og óáræðanlegum játningum. Vinnur líka að meðferð geðsjúkra. 

Hann er búinn að koma að mjög mörgum þekktum dómsmálum. Hann til dæmis kom að máli fjórmenningana frá Guildford og sexmenningana frá Birmingham. Mál sem tengdust hryðjuverkaárásum á Bretlandi á 8 áratugnum. Borgaraóeirðir geisuðu á Norður Írlandi þar sem tókust á þjóðernissinnar og sambandssinnar og viðkvæmt pólitískt ástand. Írski lýðveldisherinn ákvað að sýna andúð sína á breskum yfirvöldum og sprengdu sprengjur út um allt m.a. á tveimur krám í Guildford og síðan í Birmingham á stuttum tíma árið 1974. 

Það voru tíu einstaklingar handteknir fyrir þessar árásir, ákærðir og sakfelldir. Í yfirheyrslum játuðu 8 af þessum aðilum en drógu síðan játningar sínar tilbaka. Þessir aðilar voru taldir meðlimir í Írska lýðveldishernum án þess að sannanir væru fyrir því. Meira en áratug eftir þetta voru dómarnir ógiltir fyrir í hæstarétti og þessir dómar taldir með verstu réttarmorðum í sögu Bretlands. 

Allavega þá vann Gísli við annan mann að þessum málum í hátt í fjögur ár og sú vinna þeirra varð til þess að mál þessara einstaklinga var tekið upp og þeir sýknaðir eftir að hafa setið meira en áratug í fangelsi saklausir

Allskonar merkilegar uppgötvanir sem þeir gerðu við þessar rannsóknir um sefnæmi og undanlátssemi einstaklinga, stór munur á persónuleika þeirra sem játuðu og hinna sem ekki játuðu.

BS verkefnið hans sem fjallaði um Breiðuvík, afbrotaheimili fyrir unglinga. 

Það vakti áhuga hans að sagan sagði að þessi stofnun næði mjög góðum árangri því flestir þeirra drengja sem þangað færu stæðu sig vel eftir að hafa dvalið þar. Hann ákvað að rannsaka þetta og athuga hvort það væri rétt að stofnunin næði svona góðum árangri í raun og veru og hver væri skýringin á velgengninni. Breiðavík var huxað sem fjölskylduheimili og átti að vera vistunarstaður fyrir stráka sem höfðu þörf fyrir umsjón og vernd, meðal annars vegna hvanrækslu foreldra, lélegrar mætingar í skóla og andfélagslegrar hegðunar. “vandræðaunglingar” 

 Úrtakið sem hann notaði í verkefninu sínu samanstóð af 71 drengjum sem Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sendi til Breiðuvíkur á árunum 1953-1970. Rannsóknarefnið var að skoða hversu hátt hlutfall þessara drengja hefði framið afbrot eftir að hafa útskrifast frá Breiðavík og meta hversu alvarlega brotin væru, og greina hvaða þættir tengdust afbrotahneigð eftir meðferð. 

Niðurstöður rannsóknar hans var alls ekki í samræmi við það sem sagan sagði um góðan árangur þar sem í ljós kom að 70% úrtaksins framdi alvarleg afbrot eftir að hafa útskrifast frá Breiðuvík. Þannig að þessi góði árangur sem talað var um var bara tilfinning sem átti ekki við nein rök að styðjast. Félagsmálastofnun sýndi niðurstöðunni sem birtust í lokaritgerð Gísla 1975 mikinn áhuga og fáeinum árum eftir það var heimilinu lokað. 

Þáverandi yfirmaður félagsmálastofnunar bað um að varlega yrði farið með skýrsluna og skýrslan því stimpluð sem trúnaðarmál. 

Við vitum núna, hvað gerðist allmörgum árum síðar ...

Thursday, March 21, 2013

Sögur af landi

Mig langar að segja ykkur sögu sem að Addi bróðir minn sagði mér. Ég hef alltaf öfundað hann af því hann kann ótal mikið af frásögnum, furðusögum og staðreyndum um allt og ekkert. Hann segir mér hverjum við erum skyld, hann segir mér sögur af draugum, þjóðsögur, flökkusögur og allskyns staðreyndir.

Hann sagði mér þessa sögu um atburð sem gerðist heima. Heima í Steinadal. Þegar ég heyrði hana fyrst, var hún reyndar sungin, og bara byrjunin. 

Það kemur síðar en ég ætla líka að byrja á byrjuninni, hér kemur sagan eins og hún er skráð í Refskinnu II "Bragi Jónsson (Refur bóndi). 1973. Hörpuútgáfan, Reykjavík. Bls. 48-50."

Slysið á Steinadalsheiði 21. desember 1929

Inn af Kollafirði í Strandasýslu er allstór dalur er Steinadalur heitir. Í honum er fjórir bæir, Fell, sem er landnámsjörð og gamalt prestssetur og kirkjustaður, er er nú lagt niður sem slíkt og Miðhús sem byggð eru úr Fellsland öðrum megin, en Ljúfustaðir og Steinadalur hinum megin. Eru allar þessar jarðir í byggð. Leiðin suður til Gilsfjarðar liggur upp á Steinadalsheiði. Eigi getur hún talizt löng og er slarkfær bifreiðum að sumrinu, en verður ófær í fyrstu snjóum.Leið þessi er þó allfjölfarin að sumrinu og gæti verið allgóð ef eitthvað væri fyrir hana gjört. Gilsfjarðarmegin eru fyrstu bæirnir sem að er komið: Gilsfjarðarbrekka sem er í Barðastrandasýslu og Kleyfar [sic], sem tilheyra Dalasýslu. Á Steinadalsheiði varð slys það er hér verður frá sagt:



Árið 1929 bjó í Steinadal með móður sinni sem mig minnir að héti Þorbjörg, Jón Þorbjörnsson, en faðir hans var þá látinn. Fleira fólk var þar á heimilinu, m.a. tvær systur hans og er önnur þeirra á lífi, María húsfreyja á Ljúfustöðum. Jón var fæddur 1893 og því 36 ára er hann lézt á hörmulegan hátt. Hann var þá heitbundin frændkonu sinni, Önnu Franklínsdóttur frá Litla-Fjarðarhorni, mestu myndar- og efnisstúlku. Eigi höfðu þau opinberað trúlofun sína, sem kallað er og var ætlunin að gjöra það um jólin.

Þá bjó í Múla í Gilsfirði maður að nafni Friðbjörn Guðjónsson og var hann gullsmiður. Hjá honum hafði Jón pantað trúlofunarhringa, en hringana þurfti hann að sækja sjálfur og lá leiðin því að sjálfsögðu yfir Steinadalsheiði. Hinn 20. desember 1929 lagði svo Jón í þá ferð sem varð hans síðasta. Var ferð hans heitið að Múla í Gilsfirði til Friðbjarnar gullsmiðs að sækja hringana. Veður var dágott og gekk honum vel yfir heiðina. Lauk hann erindum sínum í Múla og gisti þar.

Daginn eftir var tvísýnt veðurútlit, en hann lét það ekki hefta för sína og hélt af stað og var hugmynd hans að ná heim um kvöldið. Leið svo dagurinn og kvöldið að hann kom ekki heim. Var þó ekki undrast um hann þar sem veður var ekki gott, en þegar næsti dagur og næsta nótt leið án þess að hann kæmi fram, þótti það ekki einleikið. Fór þá Sigurður bróðir Önnu unnustu hans suður yfir heiðina og kom að Gilsfjarðarbrekku og frétt þar að Jón hefði lagt upp á heiðina 21. desember eins og hann ætlaði sér upphaflega, vissi hann þá að eitthvað alvarlegt hefði hent Jón. Fór hann við það heim, en varð Jóns hvergi var. Liðu svo tveir dagar að ekki var hægt að hefja leit að Jóni vegna hríðarveðurs. Strax þegar upp stytti hríðinni fór hópur manna úr Kollafirði og hófu leit að honum á Steinadalsheiði, en sú leit varð eigi löng.

Fundu leitarmenn hann örendan og helfrosinn á melholti í svonefndum Brekkudal sem er Gilsfjarðarmegin á heiðinni og var hann alveg á réttri leið. Sáu þeir skjótt hvað orðið hafði honum að aldurtila því snjóflóð hafði fallið ekki langt frá þeim stað er hann fannst á og sáust glögg merki þess að hann hafði lent í því. Var hann úr liði um ökklann á öðrum fæti og auk þess meira skaddaður. Sáust þess merki að hann hafði skriðið alllanga leið, unz hann lagðist til hinztu hvíldar á melnum þar sem hann fannst undir allstórum steini, og þar mátt heyja sitt dauðastríð, hvort sem það hefir verið langt eða stutt.

Köld hefur hinzta hvílan hans verið og koddinn ekki mjúkur, en vonandi hefir hann ekki lengi þurft að bíða hvíldarinnar eilífu. Þessi hryllilegi atburður vakti almenna sorg í sveitinni og á móður hans hafði hann þau áhrif að hún bar ekki barr sitt eftir þetta.
Jón var vel gefinn myndarmaður sem allir söknuðu og er enn ekki fyrnt yfir slysför þessa.

Næst ætla ég að klára að segja ykkur söguna eins og ég heyrði hana fyrst

Saturday, February 16, 2013

Steiktir grænir tómatar ?

Tengdamóðir mín ber alltaf á borð um jólin dásamlega græna tómata. Fékk hjá henni uppskriftina og ákvað að prófa sjálf :) enda er ég martha stewart inn við beinið. Þetta er furðulega lítið mál og ég skemmti mér konunglega við þetta. 

Hefði reyndar sennilega átt að fara sjálf í Frú Laugu sem er eina búðin sem grænir tómatar fást amk á þessum árstíma. Ástæðan: eiginmaðurinn kom heim með nærri 4 kg og nú fær hann að gjalda þess. Fær í matinn steikta græna tómata og svo fann ég uppskrift að Grænni tómatasúpu á þessari yfirgirnilegu uppskriftasíðu. Því þetta var heldur meira en mig vantaði ef satt skal segja heheheh !





Núna eru litlu tómatarnir allsberir í þessum krukkum og bíða í 4-6 vikur eftir að verða meðlæti :)

Sunday, February 10, 2013

Bækur

Eiginmaðurinn kom heim með bók handa mér á laugardaginn. Það var reyndar bók sem ég las í Ítalíuferðinni okkar. Ég skottaðist í Eymundsson og fann mér aðra spennandi bók, en hér eru sumsé bækurnar sem ég er búin að lesa síðan síðast. Er síðan að þrælast í gegnum Game of thrones, ég er bara lengur að lesa þær bækur en margar aðrar. Veit ekki alveg afhverju, kannske er það bara stóra lestrargleraugnamálið hjé hjé.

Morgnar í Jenín er skyldulesning. Þetta er svakalega erfið saga, og maður getur ekki ímyndað sér og ekkert nema reynt að skilja. En það er held ég ekki hægt, þú ert frost að innan ef þessi bók hreyfir ekki við þér. Eldvitnið, fyrsta bók Keplers er sú allra besta, Dávaldurinn, þessi er þó betri en bók númer tvö, það er líka bara eh svalt við finnska rannsóknarlögreglumanninn. Er að fílann, en ehveginn ekkert mikið meira, þetta er bara fínasta afþreying. Þrettán ástæður, bara afþreying, ekkert spes. Rof las ég í einum rykk (meðmæli, þegar maður getur ekki hætt), það er eh heillandi við eyðibýli, það er eh heillandi við íslenskar aðstæður og ég fíla þennan rithöfund.

Það er bara ógeðslega sjaldan sem ég les bækur sem hreyfa almennilega við mér, man þó bara eftir einni bók sem ég hef lagt frá mér ókláraða. Það var Bókaþjófurinn sem af eh ástæðum mér fannst afspyrnuleiðinleg. Er samt að huxa um að reyna við hana aftur. 


Við stofnun Ísraelsríkis 1948 er palestínsk fjölskylda hrakin úr þorpinu þar sem ættin hefur búið öldum saman og í kjölfarið finnur hún sér hæli í flóttamannabúðunum í Jenín. Á leiðinni hverfur eitt barnanna, ungur drengur sem elst upp í gyðingdómi, en bróðir hans fórnar öllu fyrir málstað Palestínumanna. Systirin Amal flyst til Bandaríkjanna en snýr aftur og kynnist ást, missi og hefndarþorsta. Saga fjölskyldunnar er saga palestínsku þjóðarinnar, flóttamanna í sextíu ár – einlæg og mannleg frásögn sem oft hefur verið líkt við Flugdrekahlauparann.


Á stúlknaheimili norður af Sundsvall í Svíþjóð gerast voveiflegir atburðir. Á dimmu haustkvöldi finnst ein stúlknanna myrt og skömmu síðar gæslukona. Lík ungu stúlkunnar er í undarlegri stellingu: með hendurnar fyrir andlitinu.
Engin vitni voru að voðaverkunum en nokkrum dögum eftir að þau eru framin hringir kona í Stokkhólmi í lögregluna og segist geta veitt upplýsingar – gegn gjaldi. Í þetta skipti er lögregluforinginn Joona Linna nánast ráðþrota. Hvaða öfl eru þarna að verki?




Þegar Clay Jensen kemur heim úr skólanum bíður hans óvænt sending: skókassi, fullur af gamaldags kassettum. Þegar Clay finnur loksins tæki til að spila þær í heyrir hann rödd sem hann þekkir, rödd Hönnu Baker, bekkjarsystur hans sem hann er búinn að vera skotinn í síðan hann sá hana fyrst … og sem er nýbúin að fremja sjálfsvíg. Á spólunum gefur Hanna þrettán ástæður fyrir því sem hún gerði – nefnir þrettán manneskjur sem höfðu áhrif á ákvörðun hennar – og úr því að Clay fékk þær sendar kemur hann þar við sögu. En hvað í veröldinni hefur hann gert sem ýtti Hönnu fram af brúninni? Eina leiðin til að komast að því er að hlusta. Fram undan er löng og erfið nótt sem breytir Clay til frambúðar.


Árið 1955 flytja tvenn ung hjón í afskekktan eyðifjörð. Dvölin fær snöggan endi þegar önnur kvennanna deyr með dularfullum hætti. Hálfri öld síðar finnst gömul ljósmynd sem bendir til þess að hjónin hafi ekki verið ein í firðinum. Ari Þór lögreglumaður á Siglufirði reynir að fá botn í þetta dularfulla mál með liðsinni fréttakonunnar Ísrúnar. Og í Reykjavík vindur óvænt sakamál upp á sig þegar ung fjölskylda er ofsótt af ókunnum manni.