Thursday, March 21, 2013

Sögur af landi

Mig langar að segja ykkur sögu sem að Addi bróðir minn sagði mér. Ég hef alltaf öfundað hann af því hann kann ótal mikið af frásögnum, furðusögum og staðreyndum um allt og ekkert. Hann segir mér hverjum við erum skyld, hann segir mér sögur af draugum, þjóðsögur, flökkusögur og allskyns staðreyndir.

Hann sagði mér þessa sögu um atburð sem gerðist heima. Heima í Steinadal. Þegar ég heyrði hana fyrst, var hún reyndar sungin, og bara byrjunin. 

Það kemur síðar en ég ætla líka að byrja á byrjuninni, hér kemur sagan eins og hún er skráð í Refskinnu II "Bragi Jónsson (Refur bóndi). 1973. Hörpuútgáfan, Reykjavík. Bls. 48-50."

Slysið á Steinadalsheiði 21. desember 1929

Inn af Kollafirði í Strandasýslu er allstór dalur er Steinadalur heitir. Í honum er fjórir bæir, Fell, sem er landnámsjörð og gamalt prestssetur og kirkjustaður, er er nú lagt niður sem slíkt og Miðhús sem byggð eru úr Fellsland öðrum megin, en Ljúfustaðir og Steinadalur hinum megin. Eru allar þessar jarðir í byggð. Leiðin suður til Gilsfjarðar liggur upp á Steinadalsheiði. Eigi getur hún talizt löng og er slarkfær bifreiðum að sumrinu, en verður ófær í fyrstu snjóum.Leið þessi er þó allfjölfarin að sumrinu og gæti verið allgóð ef eitthvað væri fyrir hana gjört. Gilsfjarðarmegin eru fyrstu bæirnir sem að er komið: Gilsfjarðarbrekka sem er í Barðastrandasýslu og Kleyfar [sic], sem tilheyra Dalasýslu. Á Steinadalsheiði varð slys það er hér verður frá sagt:



Árið 1929 bjó í Steinadal með móður sinni sem mig minnir að héti Þorbjörg, Jón Þorbjörnsson, en faðir hans var þá látinn. Fleira fólk var þar á heimilinu, m.a. tvær systur hans og er önnur þeirra á lífi, María húsfreyja á Ljúfustöðum. Jón var fæddur 1893 og því 36 ára er hann lézt á hörmulegan hátt. Hann var þá heitbundin frændkonu sinni, Önnu Franklínsdóttur frá Litla-Fjarðarhorni, mestu myndar- og efnisstúlku. Eigi höfðu þau opinberað trúlofun sína, sem kallað er og var ætlunin að gjöra það um jólin.

Þá bjó í Múla í Gilsfirði maður að nafni Friðbjörn Guðjónsson og var hann gullsmiður. Hjá honum hafði Jón pantað trúlofunarhringa, en hringana þurfti hann að sækja sjálfur og lá leiðin því að sjálfsögðu yfir Steinadalsheiði. Hinn 20. desember 1929 lagði svo Jón í þá ferð sem varð hans síðasta. Var ferð hans heitið að Múla í Gilsfirði til Friðbjarnar gullsmiðs að sækja hringana. Veður var dágott og gekk honum vel yfir heiðina. Lauk hann erindum sínum í Múla og gisti þar.

Daginn eftir var tvísýnt veðurútlit, en hann lét það ekki hefta för sína og hélt af stað og var hugmynd hans að ná heim um kvöldið. Leið svo dagurinn og kvöldið að hann kom ekki heim. Var þó ekki undrast um hann þar sem veður var ekki gott, en þegar næsti dagur og næsta nótt leið án þess að hann kæmi fram, þótti það ekki einleikið. Fór þá Sigurður bróðir Önnu unnustu hans suður yfir heiðina og kom að Gilsfjarðarbrekku og frétt þar að Jón hefði lagt upp á heiðina 21. desember eins og hann ætlaði sér upphaflega, vissi hann þá að eitthvað alvarlegt hefði hent Jón. Fór hann við það heim, en varð Jóns hvergi var. Liðu svo tveir dagar að ekki var hægt að hefja leit að Jóni vegna hríðarveðurs. Strax þegar upp stytti hríðinni fór hópur manna úr Kollafirði og hófu leit að honum á Steinadalsheiði, en sú leit varð eigi löng.

Fundu leitarmenn hann örendan og helfrosinn á melholti í svonefndum Brekkudal sem er Gilsfjarðarmegin á heiðinni og var hann alveg á réttri leið. Sáu þeir skjótt hvað orðið hafði honum að aldurtila því snjóflóð hafði fallið ekki langt frá þeim stað er hann fannst á og sáust glögg merki þess að hann hafði lent í því. Var hann úr liði um ökklann á öðrum fæti og auk þess meira skaddaður. Sáust þess merki að hann hafði skriðið alllanga leið, unz hann lagðist til hinztu hvíldar á melnum þar sem hann fannst undir allstórum steini, og þar mátt heyja sitt dauðastríð, hvort sem það hefir verið langt eða stutt.

Köld hefur hinzta hvílan hans verið og koddinn ekki mjúkur, en vonandi hefir hann ekki lengi þurft að bíða hvíldarinnar eilífu. Þessi hryllilegi atburður vakti almenna sorg í sveitinni og á móður hans hafði hann þau áhrif að hún bar ekki barr sitt eftir þetta.
Jón var vel gefinn myndarmaður sem allir söknuðu og er enn ekki fyrnt yfir slysför þessa.

Næst ætla ég að klára að segja ykkur söguna eins og ég heyrði hana fyrst

1 comment: