Saturday, December 21, 2013

Ég, aldurinn og jólin

Einu sinni var ég að keyra heim úr vinnunni á aðfangadag. Keyrði fram á árekstur, þ.e. jeppi hafði keyrt inn í hliðina á smábíl. Í smábílnum var gömul kona farþegi hjá ungri konu. Jeppanum keyrði maður. Hann og unga stúlkan voru að styðja gömlu konuna að sjúkrabílnum þegar ég kom að. 

Þar sem ég sat á rauðu ljósi í bílnum mínum á leiðinni heim tókst mér að ímynda mér að unga stúlkan hefði verið með ömmu sinni í kirkjugarðinum. Þær saman að setja ljós á leiði afans, hefðu svo verið á leiðinni á elliheimilið þar sem amman ætlaði að halda jólin. 

Og með tár í augunum og kökk í hálsinum keyrði ég heim.

Áðan var ég í Bónus. Þar var eldri maður með mat í körfu og bað stúlkuna að stoppa þegar að hann væri kominn upp í 3000 kr. Á milli mín og hans var pelsklædd frú (sem skiptir ekki öllu máli en ég ímynda mér að mögulega hefði ég haft kjark ef hún hefði ekki verið þarna). Alltíeinu brosir stúlkan elskulega til mannsins og segir honum að nú sé hún komin upp í 2989 kr. Hann brosti tilbaka, bað stúlkuna að halda eftir kaffipoka og hakki og skottaðist út. Ég er ennþá leið í hjartanu að hafa ekki þorað að bjóða honum að kaupa kaffið og ketið. 

Eiginmaðurinn sagði mér reyndar fyrir nokkrum dögum að ég yrði svona í desember. Þá meina ég ekki huglaus og ímyndunarveik. En mér finnst pínulítið erfiðara að vera til. 

Af því að það eru svo alltof alltof margir sem eiga engan. Engan sem heimsækir eða hringir. Auðvitað af margvíslegum ástæðum. En ég meina Hitler var skemmtilegur við lítil börn. Svo það má mikið vera ef einstæðingar eru það vegna illmennsku. 

Ok það sem ég er að reyna að segja er, að ein verðmætasta gjöfin er tíminn okkar, gefum það sem við getum til þeirra sem þurfa og leggjum allt í samskiptin sem við eigum og leggjum okkur fram við að eiga falleg samskipti. 

Og á sama tíma verð ég að viðurkenna að það hlýtur að vera auðveldara að vera bara sama, vera reiður út í fólk sem maður þekkir ekki neitt, pólitíkusa, ríkisstjórnir og býsnast yfir eh sem kemur manni ekki rassgat við. En við eigum það sameiginlegt að vera fólk og orkan sem fer í að hafa skoðun á hlutum sem koma manni ekkert við væri betur nýtt til að gefa af okkur til annarra. 

Yfir & út

No comments:

Post a Comment